Mitt smáheimili á hjólum

Ég var búin að heyra um og fylgjast með þróun smáheimila á hjólum í nokkur ár þegar ég ákvað að taka af skarið. Ég er orðin vön því að flytja og finnst gaman að búa á mismunandi stöðum, en mér leiðist að pakka niður, flytja innbú fram og tilbaka og koma mér fyrir á nýjum stað. Smáheimili á hjólum gerir mér kleift að búa hvar sem ég vil, hvenær sem ég vil, án þess að þurfa að pakka í kassa og finna nýjan stað að búa á. Ég skrifaði framleiðanda í Evrópu og þeir voru áhugasamir um hugmyndina svo við ákváðum að þróa húsið saman. Húsið kemur til landsins í apríl eða maí og ég get varla beðið eftir að flytja inn í þessa 13 fermetra sem verður heimilið mitt næstu árin.

Í smáheimilinu mínu er baðherbergi með ferðaklósetti, sturtu og litlum vaski, eldhúsið er útbúið með tveimur gas hellum og litlum ofni samt kæliskáb. Svefnloft með tvöfaldri dýnu liggur yfir eldhúsinu og trappan uppá loft er einnig hyrsla. Í stofunni er borð fyrir fjóra og svefnsófi fyrir tvo og allt þetta kemst fyrir á 13 fermetrum. Tvær sólarsellur fylla rafgeyma, eldhúsið gengur á gasi og hitamiðstöðin get ég valið hvort gengur á gasi eða rafmagni. Svo eru vatnstankar sem ég fylli og tæmi eftir notkun og það sama gildir með klósettið. Ég get sem sagt verið hvar sem er án þess að vera tengd við klóak, vatn og rafmagn og get tæmt og fyllt eftir þörfum td. á tjaldsvæðum.

Ég er oft spurð hver munurinn er á smáheimili á hjólum og hjólhýsi. Aðal munurinn liggur í að smáheimilið er byggt á sama máta og hús. Það eru venjulegir gluggar og hurð og það eru notuð sömu efni í veggi og loft einsog í húsi. Síðan er smáheimilið breiðara og hærra en hjólhýsi. Stærðin og val á efnum gerir að tilfinningin í smáheimilinu er sú sama og við að koma inní lítið hús eða sumarhús.

Það hefur verið nokkur umræða um smáheimili á Íslandi, bæði á hjólum og staðsett, og fyrsta spurningin er alltaf, hvar má húsið standa. Þar sem mig langar ekki að staðsetja mitt hús, ákvað ég að það verður skráð sem hjólhýsi en byggt sem heilsárs hús. Í mínu tilviki er auðveldast að nota tjaldsvæði, en ef mig langar að setjast að á einum stað í lengri tíma þá er möguleiki á að fá stöðuleyfi á leigðri eða keyptri jörð. Einnig eru mörg tjaldsvæði á Íslandi opin allt árið.

Smáheimila hreyfingin eða “Tiny house movement” hefur breiðst út á seinustu árum og nú eru komnar margar lausnir á markaðinn. Ég geri mér grein fyrir að svona lifnaðarháttur er ekki fyrir alla, en að sama skapi er sá lifnaðarháttur sem við þekkjum mest, heldur ekki fyrir alla. Það sem mér finnst mikilvægast er að eiga möguleikann á að velja.