Fæðing Vegdísar

Nokkrum mánuðum eftir að ég flutti aftur til Íslands eftir 15 ára fjarveru, þegar allt var komið í ró og fastar skorður, fann ég ennþá fyrir þessarri frelsis tilfinningu sem ég fékk þegar ég flutti allar mínar eigur í einum jeppa með Norrænu.

Ég vissi að mig langaði ekki bara að flytja eitthvert annað, en mig langaði að hafa möguleikann, án þess að þurfa að pakka niður og upp í hvert skipti.

Þegar ég sá hvaða lausnir voru til á markaðnum af smáheimilum á hjólum, var alltaf eitthvað sem vantaði eða hefði mátt fara betur eftir minni skoðun, og mig langaði að gera þetta litla heimili eftir mínu eigin höfði. Svo ég ákvað að hafa samband við framleiðanda til að búa til smáheimili á hjólum eftir mínum hugmyndum.

Það tók ekki langan tíma þar til ég hafði gert samning við framleiðanda og þróunin komin í gang. Ég vissi sem betur fer frá fyrri störfum tengt framleiðslu, að svona hlutir taka sinn tíma svo ég vopnaði mig með þolinmæði og jákvæðni.

Stuttu áður en allt þetta ferli hófst, fór ég til miðils. Sumir hoppa kannski yfir í næstu málsgrein ef þeir nenna ekki að lesa um svoleiðis, og allt í góðu með það. Miðillinn sagði meðal annars að ég ætti að fara eftir innsæinu og maga tilfinningunni. Þetta eru engin geimvísindi, en góð áminning þó. Á þeim tíma var ég svo langt leidd í hvað þjóðfélagið og samfélagið hefur af skoðunum og áætlunum fyrir mig sem verandi einhleyp, barnlaus, yfir þrítugt og í fastri vinnu. Ég gaf mig alla fram og hlustaði vel eftir þessarri magatilfinningu og innsæi. Það tók alveg ótrúlega langan tíma áður en ég loksins fékk samband við innsæið. Mér blöskraði á því hve langt ég var komin frá maganum og hjartanu. Þetta gengi ekki lengur, nú myndi ég hlusta vel eftir og ekki missa sambandið aftur. 

Þegar fór að líða á þróunarferlið byrjaði ég að segja fólki frá plönum mínum um að búa um allan heim, með smáheimilið mitt aftan í bílnum. Fólk var mjög jákvætt og áhugasamt um þessa hugmynd og studdi mig með ráðum, reynslum og þess háttar.

Það fannst allmörgum að smáheimilið var svo spennandi nýjung og fannst að ég ætti að gera meira úr þessarri hugmynd og þessarri vöru. Þeim fannst vera markaður fyrir þessa vöru hérna á Íslandi. Í byrjun vissi ég ekki hvort eða hvernig ég ætti að nýta mér þennan möguleika, en byrjaði að brjóta heilann og hlusta á maga tilfinninguna.

Eftir þó nokkra rannsókn og ráðleggingar breyttist hugmyndin í að þetta skyldi vera nýja vinnan mín. Að selja smáheimili á hjólum útum allan heim! Þessi stóra ákvörðun var ekki auðveld, en ég gat ekki sleppt því að prófa. Ég hugsaði, hvað væri það versta sem gæti gerst; að það mistakist og ég enda með mína eigin Vegdísi og finni mér venjulega vinnu. Það hljómaði ekki slæmt í mínum eyrum svo ég tók af skarið.