Smáheimili – Tími

Að búa í smáheimili er öðruvísi en að búa í venjulegri íbúð. Það er mjög persónubundið hvað hverjum og einum finnst vera kostur eða galli. Persónulega hef ég upplifað fleiri kosti en galla og hef ekki saknað neins við venjulega íbúð.

Það er takmarkað pláss í húsinu svo ég veit hvar hlutirnir mínir eru, og ég þarf ekki að leita lengi. Að vita hvað ég á og hvar hlutirnir eru hefur gefið mér mikla ró en einnig tímasparnað.

Ég myndi deila tímasparnaðinum í tvennt. Sá tími sem fer í sjálft húsið, og sá tími sem fer í að eiga húsið. Ég er 15 mínútur að þrífa húsið, 30 mínútur að fylla og tæma það og það þarfnast lítils viðhalds.

Tímasparnaðurinn við að eiga húsið er samt mestur. Húsið er ódýrt í rekstri sem gefur mér möguleika á að velja hvað ég nota tíma minn í, þeas. ég get valið hvort ég vil þéna meira við að auka vinnuna, eða ég vilji nota tímann í aðra hluti.

Persónulega hefur húsið gefið mér tækifæri á að komast að því að ég vil frekar vera sjálfstætt starfandi en launþegi. Ég fékk tíma og orku til að setja á laggirnar nokkur verkefni sem gefa mér tekjur og ég get ráðið mínum tíma sjálf. Þessir hlutir hafa gefið mér frelsið mitt aftur en þó svo að þetta sé ekki draumur allra, þá er svo mikilvægt að hafa möguleikann á að láta reyna á það og taka sínar eigin ákvarðanir.

Með allan þennan tíma fyrir hendi er auðvelt að detta bara inní hámhorf, og suma daga er það alveg nauðsynlegt. Mín reynsla úr atvinnulífinu og skólagöngu er að allir eru að leitast við að hafa nógu djöfulli mikið að gera. Afsakið orðbragðið. Ef maður hefur ekki nóg að gera og er alltaf að eltast við skottið á sér, þá er maður latur og hefur ekki metnað.

Ég verð samt að segja að bestu hugmyndirnar mínar og fallegustu hlutirnir sem ég hef búið til, hafa orðið til því mér náði að leiðast. Mér finnst æðislegt að leiðast stundum, því þá fer hugmyndaflugið og ímyndunaraflið í gang. Það liggur við að ég setji einu sinni á viku í dagatalið að mér eigi að leiðast í 1-2 tíma, það þarf ekki meira.

Margir halda að þeir séu ekki herra yfir sínum eigin tíma því vinna, börn, skóli osfrv. koma í veg fyrir það. Ég hef samt oft upplifað að þetta getur orðið að fíkn, að hafa nóg fyrir stafni þannig að það er aldrei tími til að hugsa yfir hlutina eða taka meðvitaðar ákvarðanir, því það er auðveldara að láta sig rífa með straumnum.