Smáheimili – Innkaup og neysla

Að búa í smáheimili er öðruvísi en að búa í venjulegri íbúð. Það er mjög persónubundið hvað hverjum og einum finnst vera kostur eða galli. Persónulega hef ég upplifað fleiri kosti en galla og hef ekki saknað neins við venjulega íbúð.

Einn af kostunum sem ég hef upplifað er að ég er búin að minnka neysluna og innkaupin. Ég hugsa mig vel um áður en ég kem með hluti heim, annaðhvort úr búðinni eða hluti sem mér býðst gefins frá öðrum. Eins og sést á listanum fyrir neðan eru þetta ekki margir hlutir seinasta 1 ½ ár. Ég bý að vísu svo vel að eiga og kunna á saumavél svo ég get gert við og breytt fötum sjálf.

Hlutir sem ég hef keypt á seinasta 1 ½ ári:

  • Þrjár nærbuxur (kominn tími til að skipta út)
  • Mat og drykki (kemst ekki af án)
  • Eina bók (les annars mest e-bækur en langaði í kósí jólabók)
  • Svefnsófa (breytti til í stofunni)
  • Buxur (búin að gera við uppáhaldsbuxurnar oft, en nú eru þær að kveðja)

Hlutir sem ég hef fengið seinasta 1 ½ ári:

  • Skór (vinkona mín var að taka til hjá sér)
  • Þrjár peysur (tvær heimaprjónaðar og ein keypt á fatamarkaði)
  • Sokkabuxur (jólagjöf, var búin að ganga í gegnum gömlu)

Þegar ég þarf að ákveða hvort að hlutur eigi að koma heim með mér, þá hef ég nokkrar ástæður í huga. Ástæðan getur verið að hluturinn gefi mér gleði, hluturinn verður notaður oft eða ég njóti hans meðan hann endist, td. blóm.

Ég bjó áður í venjulegri íbúð og stærsta tiltektin gerðist áður en ég flutti inní húsið. Þá tók ég til í öllu sem ég hafði sankað að mér í gegnum 35 ár. Sú tiltekt tók nokkur kvöld/helgar og heilt ógrynni af hlutum fengu nýtt líf á öðrum stað.

Mér hefur blöskrað að ég hafi ekki saknað neinna af hlutanna sem fóru fyrir, núna, 4 árum. Þetta sýndi mér að ég vil velja betur hvað kemur inná heimilið. Ef ég hef ekki notað hlutinn í 1 ár, þá er líklegt að hann eigi að fá annan stað til að njóta sín.