Eldmóður og ráðleggingar

Þegar ég tók ákvörðunina um að gerast sjálfstætt starfandi tók yfir mig eldmóður og ringulreið. Áhugi minn á verkefninu skein í gegnum og ég sagði glaðlega frá því hvað ég var að sísla. Ég fékk margar ráðleggingar og hugmyndir sem ég tók vel á móti og jafnvel sóttist eftir á tímabili.

Það kom sá tími að hugmyndin og verkefnin fengu skýra mynd á sig. Ringulreiðin minnkaði en eldmóðurinn hélt áfram. Það sem kom mér á óvart var að ráðleggingarnar og hugmyndirnar héldu áfram að streyma inn. Þetta þótti mér óvænt, því ég hafði ekki búist við þessu nema í byrjun ferlisins.

Vanalega spyr fólk hvort annað hvernig gengur í vinnunni og því er yfirleitt svarað á stuttan hátt án mikilla smáatriða og ekki er farið dýpra í þau mál. Spurningin hljómar oft eins það sé skylda spyrjanda að heyra um hag hvors annars í vinnunni. Í mínu tilviki er alltaf spurt um smáatriðin og mér finnst ég ekki komast hjá því að svara. Áhuginn sem fólk sýnir er hughreystandi og hvetjandi, en snýst uppí andhverfu sína á tímum þar sem ráðleggingar og hugmyndir yfirtaka samtalið.

Á tímapunkti vissi ég ekki hvernig ég ætti að taka á móti þessum ráðleggingum og hugmyndum og þegar ég hafði fengið nóg og fannst ég þurfa að einbeita mér að þeirri stefnu sem var tekin, braust það út í pirringi og mótlæti. Sú hegðun bar ekki mikinn ávöxt. Áður en sambönd eyðilögðust þurfti ég að endurskoða þessa hegðun.

Afhverju er svona mikill munur á áhuga fólks þegar kemur að starfi sem launþegi eða sjálfstætt starfandi? Mér finnst líklegt að þegar um launþega störf er að ræða, þá ræður viðkomandi ekki miklu um verkefni sín, á meðan sjálfstætt starfandi geta ráðið næstum öllum liðum í starfinu. Mér finnst líka líklegt að fólk sakni þess að geta valið sín verkefni og sjái kærkomið að geta opnað fyrir viskubrunninn þegar þau heyra um spennandi nýjungar.

Nokkrum samræðum síðar kom í ljós að ég get aldrei vitað ástæðuna fyrir ráðleggingunum og hugmyndunum án þess að spyrja viðkomandi. Ástæða hvers og eins er mismunandi og ég hafði ekki löngun til að grafa dýpra í hvers og eins ástæðu því ég vissi aldrei hvernig því væri tekið og hvort þær samræður bæru árangur. Til að létta mér verkið ákvað ég að ég get einungis ráðið eigin hegðun við aðstæðunum. Pirringurinn og mótlætin voru ekki að virka jákvætt frá fyrri reynslu svo það þurfti að breytast.

Til að virka áhugasöm um hvað fólk hefur af ráðleggingum og hugmyndum verð ég að vopna mig með þolinmæði og jákvæðni á meðan innsta óskin er að skipta um umræðuefni. Þó að innsta óskin er að skipta um umræðuefni hefur það komið fyrir að við að nota þolinmæði og jákvæðni hef ég fengið einstaka ráðleggingu og hugmynd sem ég hef getað notað. Það hjálpar að hugsa til þess á meðan ég læri að halda uppi þolinmæði og jákvæðni.

– Valdís Eva Hjaltadóttir